Hin misskildu "menningarverðmæti"

Nú er fyrirhugað er að reisa hús fyrir milljarð íslenskra króna utan um nýja stofnun Árna Magnússonar, enn eitt ríkisbáknið sem hefur þann eina tilgang að sólunda í tóma vitleysu þeim fjármunum sem stolið hefur verið af heiðarlegum íbúum þessa lands í formi skatta. Innan veggja þessarar stofnunar munu reika um skítugir aflóga fræðimenn sem komast af með því að mergsjúga skattspenann (þótt spenar hafi raunar engan merg, en það er annað mál) og hafa þann eina tilgang að stunda óarðbærar „rannsóknir“ á svokölluðum „menningarverðmætum“ og reyna að hindra frjálsa markaðsvæðingu með því að „viðhalda þjóðernisvitund og íslenskri tungu“. Hafa lesendur áður kynnst slíkri afturhaldssemi? Það hafa Varðhundar frelsisins ekki.

Hvenær ætlar fólk að átta sig á því sem Varðhundar frelsisins hafa talað fyrir svo óralengi; að svonefnd „menningarverðmæti“ eru ekki verðmæti nema einhver sé tilbúinn að borga fyrir að njóta þeirra? Í Árnastofnun eru mörg hinna „verðmætu“ handrita meira að segja geymd bak við luktar dyr þannig að enginn getur fengið að sjá þau, hvað þá meira! Auðvitað væri best að einkavæða stofnanir sem þessar, eins og allar stofnanir. Leyfa útsjónarsömum einstaklingum með viðskiptavit að efla íslenskt þjóðarbú með því að selja aðgang að Konungsbók Eddukvæða og öllum hinum rykföllnu skruddunum. Jafnvel væri hægt að selja einhver þeirra til atorkusamra viðskiptajöfra ef rétt verð byðist. Þeim munum sem fólk væri ekki tilbúið að greiða fúlgur fyrir að berja augum væri svo að sjálfsögðu réttast að fleygja. En ekki hvað?

Það sama gildir um Þjóðminjasafnið. Þar er aldrei nokkur maður nema stöku túristi á miðvikudögum, þegar aðgangur er ókeypis. Bendir það ekki til þess að þær svokölluðu „þjóðargersemar“ sem þar eru til sýnis séu alls ekki verðmætar, heldur einmitt þvert á móti algjörlega verðlausar? Ef skynsamur einkaaðili ætti safnið myndi hann annað hvort finna leið til að græða á því eða selja munina hæstbjóðendum og loka sjoppunni. Tilgangur þess að reka eitthvað án arðs er Varðhundum frelsisins algerlega hulinn og það er hrein og bein móðgun við réttsýna launþega að lifibrauði þeirra sé varið í slíka gagnsleysu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband