14.2.2007 | 10:03
Hvers vegna fer sjálfsafla fé okkar í þetta reglugerðar- og ríkisbákn?
Eins og lesendum síðunnar ætti að vera vel kunnugt um misbýður varðhundum frelsisins að sjálfsaflafé þeirra sé notað til að þenja út báknið, með tilheyrandi bruðli í sósíalískar atvinnubótastofnanir. Vísitala framleiðsluverðs er gott dæmi um þessa fönísku hneigð ríkisapparatsins, sem býr til gerviþarfir til að iðjulausir ríkisstarfsmenn geti sagst vera í vinnu. Þetta snýst allt um hvata, eins og við öllum vitum, og ríkishvatinn er ekki til. Hefur þú lesandi góður annars einhverntímann heyrt um einhvern sem hagnýtir sér þessa svokölluðu "vísitölu"? Einkaaðilar eru fullfærir um að búa til sína eigin indikatora, sem þeir geta brúkað að eigin vild og selt til þeirra sem telja sig þurfa slíkt.
Annars flæðir póstur inn á rafrænt gólf varðhundanna (frelsid@gmail.com) eftir að síðan opnaði. Langflest skeytin hafa verið á jákvæðu nótunum, þar sem okkur er fagnað sem boðberum hinnar sönnu frjálshyggju, sem íslenskir íhaldsmenn hafa skrumskælt í gegnum árin. Við þökkum fyrir skeytin, en frábiðjum blóm og sjónvarpsviðtöl í bili.
Til hinna varðhundanna (varðhunda sykurhúðaða sósíalistaflokksins) höfum við einungis þetta að segja: Skammist ykkar! Þið hafið látið hunangsljúfa röddu Flokksins umbreyta ykkur í alræðissinnaða íhaldsmenn, sem skeyta engu um frelsi einstaklingsins til orða og athafna. Með ítrekuðum póstsendingum hafið þið afhjúpað villu ykkar vegar og hvetjum við, varðhundar frelsisins, ykkur eindregið til að hugleiða orð ykkar og gjörðir. Í Ritningunni, sem þið hafið greinilega týnt fyrir löngu, segir: ,,Sjá, frelsaðu markaðinn og fólkið verður frjálst".
Skammist ykkar fyrir úrtölurnar, Varðhundar frelsisins munu hér eftir sem hingað til berjast, berjast, berjast fyrir hugsjóninni.
Vísitala framleiðsluverðs hækkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook